Aron: Fannst við eiga séns

Aron Kristjánsson vonsvikinn í Álaborg í kvöld.
Aron Kristjánsson vonsvikinn í Álaborg í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, var skiljanlega svekktur með tapið gegn Spánverjum, 33:28. Hann sagði tölurnar þó ekki gefa rétta mynd af leiknum.

„Það má segja það. Þetta var hörku leikur þar sem liðin skiptust á að hafa forskot. Mér fannst við í seinni hálfleik klúðra mörgum góðum færum. Við látum reka okkur klaufalega af velli svo þeir ná nokkrum mörkum, komast yfir og ná þannig undurtökunum. Svo klúðruðum við færum á að jafna. En þetta var spennandi leikur alveg fram á síðustu tvær mínúturnar. Við tókum séns í lokin en þeir refsa og þá var þetta búið,“ sagði Aron í viðtali við RUV eftir leik.

Íslendingar áttu þó góðar rispur í leiknum en það var sérstaklega kaflar í fyrri og seinni hálfleik þar sem bakslag kom í leik liðsins og Spánverjar gengu á lagið og skoruðu meðal annars sex mörk í röð í síðari hálfleik.

„Þar erum við að lenda í erfiðleikum, bæði einum færri og tökum einnig ótímabær skot. Það er dýrt á móti Spánverjum, sagði Aron. Hann sagði leikinn hafa verið mjög erfiðan enda andstæðingurinn sterkur.

„Þetta er hörku lið og með góða leikmenn í öllum stöðum enda ríkjandi Heimsmeistarar. Okkur fannst við eiga séns að taka þá hér í dag og mér fannst það í leiknum líka. Það þurfti ekki mikið til í viðbót,“ sagði Aron í viðtali við RUV eftir leik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert