Mascherano getur ekki yfirgefið West Ham

Javier Mascherano, til hægri, ásamt Carlos Tévez og Alan Pardew, …
Javier Mascherano, til hægri, ásamt Carlos Tévez og Alan Pardew, fyrrum knattspyrnustjóra West Ham. Reuters

Javier Mascherano, argentínski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, getur ekki farið frá West Ham fyrr en að þessu keppnistímabili loknu. FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, hefur staðfest að það sé útilokað vegna reglna sambandsins um að leikmaður geti ekki leikið með meira en tveimur liðum á sama keppnistímabilinu.

Mascherano lék með Corinthians í Brasilíu eftir 1. júlí, sem er formlegt upphaf keppnistímabilsins, og gekk síðan til liðs við West Ham í lok ágúst ásamt Carlos Tévez. Hann óskaði eftir því í vikunni að vera seldur frá félaginu þar sem hann hefur sárafá tækifæri fengið til að spreyta sig.

„Þessi regla er ófrávíkjanleg og það er ekki hægt að fara á svig við hana, bara vegna þess að það hentar félögum og leikmönnum í ákveðnum tilvikum. Reglurnar voru settar til að vernda leikmennina og félögin og auka stöðugleikann í fótboltanum," sagði talsmaður FIFA við The Times í morgun.

Mascherano hafði verið orðaður við bæði Liverpool og Juventus en nú er ljóst að hann þarf að halda sig á Upton Park til vorsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert