Charlton hafnaði tilboði West Ham í Hermann

Hermann í baráttu með Charlton gegn Tottenham.
Hermann í baráttu með Charlton gegn Tottenham. Reuters

Fréttavefur Sky greinir frá því kvöld að Charlton hafi hafnað 2,5 milljón punda tilboði frá West Ham í landsliðsmanninn Hermann Hreiðarsson. West Ham leitar logandi ljósi af sterkum varnarmanni en meiðsli hafa hrjáð nokkra varnarmenn liðsins og fyrr í kvöld bárust af því fregnir að Lucas Neill, sem kom til liðsins frá Blackburn í síðustu viku, væri kominn á sjúkralistann.

West Ham hefur verið á höttunum eftir Matthew Upson varnarmanni Birmingham síðustu vikurnar en Birmingham hafnaði tveimur tilboðum Íslendingaliðsins sem hljóðuðu upp á 6 og 7,5 milljónir punda.

Þá kom fram í spjalli við Eggert Magnússon, stjórnarformann West Ham, í Morgunblaðinu í dag að West Ham hefði boðið FC Köbenhavn 2,5 milljónir punda í danska landsliðsmiðvörðinn Michael Gravgaard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert