Andriy Voronin á leið til Liverpool

Andriy Voronin, til hægri, í leik með Úkraínu gegn Ísrael …
Andriy Voronin, til hægri, í leik með Úkraínu gegn Ísrael fyrr í þessum mánuði. Reuters

Fréttavefur BBC kveðst hafa heimildir fyrir því að gengið hafi verið frá því að Andriy Voronin, framherji Bayer Leverkusen í Þýskalandi og úkraínska landsliðsins í knattspyrnu, gangi til liðs við enska félagið Liverpool í sumar. Hann hafi komist að samkomulagi um fjögurra ára samning við Liverpool. Samningur hans við Leverkusen rennur út í vor.

Voronin er 27 ára gamall og hefur skorað 6 mörk í 20 leikjum fyrir Leverkusen í þýsku 1. deildinni í vetur en hann lék með liði Úkraínu í lokakeppni HM í Þýskalandi síðasta sumar. Hann spilaði tvisvar með Leverkusen gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu fyrir tveimur árum og var í liði Leverkusen sem vann Blackburn, 3:2, í UEFA-bikarnum í síðusstu viku.

Voronin gengur undir viðurnefninu "Vorona", eða Krákan, í heimalandi sínu. Hann hefur verið í Þýskalandi frá 16 ára aldri en hann kom til Borussia Mönchengladbach frá Chornomorets Odessa árið 1995. Hjá Gladbach var hann í fimm ár en spilaði síðan í tvö ár með Mainz í 2. deild. Þá var hann í eitt ár hjá Köln en hefur leikið með Leverkusen frá 2004. Voronin hefur spilað 40 landsleiki fyrir Úkraínu og skorað í þeim fimm mörk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert