Mourinho hefur áhyggjur af gulum spjöldum

José Mourinho situr fyrir svörum á blaðamannafundi í gær. Hann …
José Mourinho situr fyrir svörum á blaðamannafundi í gær. Hann sagði sem fyrr að Liverpool stæði betur að vígi. Reuters

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea hefur áhyggjur af því að leikmenn Liverpool reyni hvað þeir geta að koma gulu spjaldi á Didier Drogba, sóknarmanninn skæða, þegar liðin mætast í fyrri leik sínum í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á Stamford Bridge í kvöld. Fái Drogba gula spjaldið verður hann í banni í seinni leik liðanna á Anfield.

Drogba er einn af fjórum leikmönnum Chelsea í slíkri stöðu þannig að liðið gæti missti fleiri í bann fyrir seinni leikinn. Michael Essien verður ekki með í kvöld þar sem hann er í banni og Michael Ballack er meiddur.

„Ég yrði ekki hissa þó þeir myndu hamast í Drogba allar 90 mínúturnar til að sjá hvort þeir geti ekki komið honum í bann. Meiðsli og leikbönn eru að trufla okkur. Svo getum við sagt að mótherjar okkar séu búnir að búa sig lengi undir þennan leik en við höfum búið okkur undir hann síðan í gær. Það er augljóslega þreyta í liðinu, allir vita að þegar komið er fram á þennan tíma árs er það krafturinn sem ræður úrslitum, ekki gæðin. Liverpool ætti að vera sigurstranglegra í þessari viðureign. Leikmenn liðsins hafa spilað þrjá eða fjóra leiki sem skipta máli á þessu ári, við höfum spilað 27.

Lið sem ekki eru stór velja eina keppni, berjast til þrautar í henni og gleyma hinum. Stórlið eins og við getum ekki leyft okkur slíkt. Við verðum að reyna til þrautar í öllum mótum. Það er áhætta, við gætum unnið allt eða næstum því ekkert. Undanfarin þrjú ár erum við samanlagt með 60 stigum meira en Liverpool í úrvalsdeildinni. Það er talsvert. En þeir eru góðir í útsláttarkeppni og eiga hrós skilið fyrir það. Frá því í janúar hafa þeir bara hugsað um Meistaradeild Evrópu og eru því í frábærri stöðu einmitt núna," sagði Mourinho.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert