Gerrard: Ótrúlegt að hafa endurtekið leikinn

Leikmenn Liverpool fagna eftir að sigurinn var í höfn í …
Leikmenn Liverpool fagna eftir að sigurinn var í höfn í kvöld. Reuters

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool sagði eftir sigurinn á Chelsea í kvöld að það væri ótrúlegtað liðið væri búið að leika sama leik og fyrir tveimur árum og væri komið í úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu. Vorið 2005 vann Liverpool sigur á AC Milan í vítaspyrnukeppni í Istanbúl eftir 3:3 jafntefli og liðin gætu mæst á ný í Aþenu þann 23. maí.

„Þetta er eitt af því besta sem við höfum gert. Það var mjög sérstakt að komast í úrslitin í fyrsta skipti en það er ótrúlegt að hafa leikið sama leik eftir að hafa verið marki undir úr fyrri viðureigninni gegn frábæru liði eins og Chelsea. Þetta tókst okkur með samstilltu átaki.

Stemmningin á vellinum hjálpaði okkur, leikaðferðin sem stjórinn lagði upp - það gekk allt eftir. Samheldnin fleytti okkur alla leið, og við erum með besta markvörð í heimi, en Chelsea á líka hrós skilið fyrir sína frammistöðu," sagði Gerrard.

Hann viðurkenndi að ummæli Josés Mourinhos um Liverpool fyrir viðureignina hefðu hjálpað til en hann gerði lítið úr fyrri árangri Liverpool og sagði að félagið væri lítið. „Þannig er José - hann hefur lífgað upp enska fótboltann og kemur mönnum í gott skap af og til. Mér fannst hann sýna okkur dálitla lítilsvirðingu með því að kalla okkur lítið félag. Tveir úrslitaleikir á þremur árum - það er ekki slæmt fyrir lítið félag," sagði Steven Gerrard.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert