Gattuso: Liverpool lélegra en United

Gennaro Gattuso í baráttu við Cristiano Ronaldo í leiknum við …
Gennaro Gattuso í baráttu við Cristiano Ronaldo í leiknum við Manchester United í fyrrakvöld. Reuters

Gennaro Gattuso, miðjumaður ítalska knattspyrnuliðsins AC Milan, gefur ekki mikið fyrir væntanlega mótherja í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu en Mílanóliðið mætir Liverpool í Aþenu þann 23. maí. Gattuso segir að það sé ekkert varið í lið Liverpool sem standi Manchester United talsvert að baki.

„Mér finnst vera áberandi munur á hæfileikum í liðum Manchester United og Liverpool. Liverpool spilar eins og ítölsk lið gerðu fyrir tíu árum síðan, hver einast sending er löng. Allt sem þeir reyna að gera er að verjast með alla sína menn fyrir aftan boltann, og vera með einn framherja. United er með mikið flinkari leikmenn, sem eru fljótir og geta gert ýmislegt með boltann. Liverpool á enga slíka einstaklinga," sagði Gattuso, sem hyggur á hefndir eftir ósigurinn gegn Liverpool í úrslitaleik keppninnar fyrir tveimur árum.

„Þessi úrslitaleikur verður öðruvísi, ég lofa því. Það er okkur nauðsynlegt að sýna hvort liðið er betra," sagði Gattuso en Liverpool vann upp þriggja marka forskot AC Milan í úrslitaleiknum í Istanbúl og sigraði síðan í vítaspyrnukeppni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert