Liverpool hyggst kaupa marga leikmenn

Rafael Benítez fer fyrir sínum mönnum þegar þeir komu á …
Rafael Benítez fer fyrir sínum mönnum þegar þeir komu á hótel Liverpoolliðsins í Aþenu í gær. Reuters

Eigendur Liverpool og knattspyrnustjóri félagsins, Rafael Benítez, hafa gefið til kynna að búast megi við því að margir leikmenn verði keyptir til liðsins í sumar. Liverpool mætir AC Milan í úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu annað kvöld en Benítez segir að sá leikur sé aðeins áfangi, ekki lokatakmark hjá liði sínu.

„Við getum bætt okkur talsvert og styrkt okkar lið. Það getum við gert með því að ná okkur í leikmenn með karakter og hæfileika, við verðum að halda þróuninni áfram," sagði Benítez.

Bandarísku eigendurnir Tom Hicks og George Gillett ætla að láta Benítez fá fúlgur fjár til að styrkja leikmannahópinn. „Það verða gerðar breytingar og ég á von á að Rafa muni eiga mjög annríkt þegar miðvikudagurinn er liðinn hjá. Á næsta tímabili viljum berjast um sigur í bæði úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu, og helst í öllum fjórum mótunum. Í úrvalsdeildinni er nauðsynlegt að vera með góða breidd og leikmenn sem eru tilbúnir í slaginn. Það er ekkert mál að gíra sig upp og sigra Barcelona eða Chelsea, en við þurfum að ná meiri stöðugleika í liðið," sagði Tom Hicks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert