Áreiti áhorfenda knúði Poll til að hætta

José Mourinho öskrar á Graham Poll dómara.
José Mourinho öskrar á Graham Poll dómara. Reuters

Graham Poll, sem hefur verið einn fremsti knattspyrnudómari Englands undanfarin ár, segir að það sé fyrst og fremst vegna stöðugs áreitis frá áhorfendum, sem hafi velt honum uppúr mistökum sem hann gerði í úrslitakeppni HM í fyrra, sem hann leggur nú flautuna á hilluna. Einnig hafi meiðandi ummæli Josés Mourinhos, knattspyrnustjóra Chelsea, haft sitt að segja.

Poll slæm mistök í leik á HM þegar hann sýndi sama leikmanninum, Króatanum Josip Simunic, gula spjaldið þrívegis í leik. Hann kveðst ekki hafa fengið tækifæri til að gleyma því í vetur.

„Í vetur hafa um 95 prósent af stuðningsmönnum heimaliðsins hverju sinni sungið um að ég hafi klúðrað heimsmeistarakeppninni. Það er erfitt að leiða slíkt hjá sér þegar maður veit að það er rétt en þetta hefur dregið verulega úr ánægju minni af því að dæma og truflað einbeitinguna," sagði Poll í samtali við BBC.

Þá hefur atvikið þegar Poll rak John Terry, fyrirliða Chelsea, af velli í leik gegn Tottenham haft sín áhrif á ákvörðun dómarans um að hætta. Hann hefur ekki viljað segja hvað José Mourinho lét þá út úr sér. „Hann veit hvað hann sagði og það var algjörlega óviðeigandi. Mér var verulega brugðið, og hann vissi að hann hefði gengið of langt. Þess vegna gekk sjálfur burt af varamannabekknum áður en ég náði að reka hann þaðan. Hafi það verið rangt hjá mér að reka John Terry af velli, þá verður svo að vera og þá voru það mistök. En mér hefur verið borið á brýn að ég hafi með þessu ætlað mér að siða leikmenn Chelsea til og kenna þeim að haga sér betur. Sú ásökun að ég sé ekki hlutlaus særir mig meira en nokkuð annað," sagði Poll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert