Leika launalaust fyrir enska landsliðið

Ensku landsliðsmennirnir vilja láta gott af sér leiða.
Ensku landsliðsmennirnir vilja láta gott af sér leiða. Reuters

Leikmenn enska landsliðsins í knattspyrnu ætla að láta öll þau laun sem þeir fá frá enska knattspyrnusambandinu fyrir þátttöku í landsleikjum næstu fjögur árin renna til góðgerðarmála.

Nefnd leikmanna, sem er skipuð þeim John Terry, Michael Owen, Gary Neville, Frank Lampard, Jamie Carragher, Rio Ferdinand og Steven Gerrard, mun ákveða á hverju ári hvert peningarnir skuli renna.

Leikmenn Englands fá 1.500 pund (190 þúsund krónur) fyrir sigurleik, 1.000 pund (127 þúsund krónur) fyrir jafntefli og 750 pund (95 þúsund krónur, fyrir tapleik. Þeir hafa ákveðið að þetta verði afturvirkt og leggja greiðslur sem þeir hafa fengið fyrir fjóra síðustu landsleiki sína í málefnið.

„Allir landsliðsmenn Englands taka á einn eða annan hátt þátt í góðgerðastarfsemi, heima fyrir eða á landsvísu. Við ákváðum að nýta okkur stöðu okkar sem landsliðsmenn til að afla fjár, en ekki síst til þess að vekja athygli á ákveðnum málefnum. Hver einasti í okkar hópi hlakkar til að taka þátt í þessu starfi," sagði John Terry, fyrirliði enska landsliðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka