Segir af sér hjá Forest

Mark Clattenburg.
Mark Clattenburg. AFP

Fyrrverandi knattspyrnudómarinn Mark Clattenburg hefur sagt starfi sínu sem ráðgjafi hjá enska félaginu Nottingham Forest lausu eftir aðeins tveggja mánaða starf.

Clattenburg hefur veitt Forest ráðgjöf þegar kemur að dómaraákvörðunum í ensku úrvalsdeildinni og sætt gagnrýni úr ýmsum áttum vegna starfsins, þar á meðal frá sparkspekingnum Gary Neville, sem hefur kallað eftir afsögn Clattenburgs.

Finnst Neville slíkt starf ekki eiga sér tilvistarrétt.

Forest vakti athygli fyrir harðorðar yfirlýsingar þegar liðinu þótti það eiga að fá dæmdar þrjár vítaspyrnur í tapi fyrir Everton í deildinni, en fékk enga.

Meiri hindrun en hjálp

„Mér er það nú ljóst að tilvist og framlag í tengslum við þessi ráðgjafastörf hafa valdið kergju milli NFFC og annarra félaga, sem var ekki ætlunin og hefur valdið því að starfið er orðið að meiri hindrun en hjálp í garð NFFC.

Starfið hefur einnig leitt til persónulegra árása í minn garð frá tilteknum félögum og sparkspekingum.

Slík viðbrögð voru ekki eitthvað sem búist var við og er miður þar sem ég hef einlæga trú á því að slík störf eigi sér tilvistarrétt og gildi í nútíma knattspyrnu,“ skrifaði Clattenburg í yfirlýsingu sem Forest birti á heimasíðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert