Fullyrt að viðræður Barcelona og Man.Utd um Eið séu hafnar

Enn er rætt um Eið Smára á Spáni og nú …
Enn er rætt um Eið Smára á Spáni og nú um mögulega sölu hans til Manchester United. AP

Spænskir fjölmiðlar halda áfram að velta vöngum yfir framtíð Eiðs Smára Guðjohnsen, landsliðsfyrirliða í knattspyrnu, og í dag er fullyrt í þarlendum netmiðlum að Barcelona og Manchester United hafi þegar hafið viðræður um skipti á honum og Gerard Piqué, sem er samningsbundinn United en leikur sem lánsmaður með Zaragoza á Spáni.

Pique er tvítugur og leikur ýmist sem miðvörður eða varnartengiliður. Hann lék þrjá leiki með aðalliði United áður en hann var lánaður til Zaragoza þar sem hann hefur staðið sig mjög vel. Pique fór frá Barcelona til United árið 2004.

Talsmaður Barcelona svaraði þessum vangaveltum þannig við Sky Sports í dag: „Okkar markmið er að vinna síðasta leik okkar og vinna 1. deildina svo að vangaveltur um leikmenn eru í biðstöðu þar til tímabilinu er lokið."

Fullyrt er að stjórnarmenn Barcelona hafi sagt við Eið að honum sé ofaukið í hópi félagsins fyrir næsta tímabil og að leit að manni í stað hans sé hafin. Eiður sagði við Morgunblaðið í dag að hann hefði ekkert heyrt frá forráðamönnum Barcelona um sín mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert