Dudek á leiðinni til Real Madrid?

Jerzy Dudek hefur staðið að baki José Reina undanfarin tvö …
Jerzy Dudek hefur staðið að baki José Reina undanfarin tvö ár og horft á hann verja mark Liverpool. Reuters

Pólverjinn Jerzy Dudek, sem hefur verið varamarkvörður enska knattspyrnuliðsins Liverpool undanfarin tvö ár, kveðst hafa fengið tilboð frá spænska stórveldinu Real Madrid.

Dudek staðfesti þetta við blaðið Liverpool Echo í dag. „Já, ég verð að viðurkenna að ég er með tilboð frá einu stærsta félagi heims, ef ekki því stærsta. Þetta boð er mikill heiður og ég er að velta þessu mjög alvarlega fyrir mér," sagði Dudek við blaðið.

Dudek var aðalmarkvörður Liverpool frá 2001 til 2005 og náði hápunktinum þegar hann tryggði félaginu sigur í Meistaradeild Evrópu vorið 2005 eftir ævintýralegan leik gegn AC Milan. En þá um sumarið var José "Pepe" Reina keyptur til Liverpool og frá þeim hefur Dudek mátt verma varamannabekkinn nær óslitið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert