Tilboð Thaksins í Manchester City samþykkt

Thaksin Shinawatra bætist að öllu óbreyttu í hóp erlendra eigenda …
Thaksin Shinawatra bætist að öllu óbreyttu í hóp erlendra eigenda enskra knattspyrnufélaga. Reuters

Stjórn enska knattspyrnufélagsins Manchester City hefur samþykkt tilboð Thaksins Shinawatra, fyrrum forsætisráðherra Tælands, í félagið og þar með verður það nú lagt fyrir hluthafa þess. Tilboðið hljóðar uppá 81,6 milljón pund, eða rúma 10 milljarða króna.

„Ég er hæstánægður með að stjórn Manchester City hafi tekið undir mitt boð og hlakka til að taka við því frábæra starfi sem John Wardle og hans menn hafa unnið. Við höfum sama metnað og þeir fyrir því að koma þessu félagi þangað sem það á skilið að vera, bæði í úrvalsdeildinni og í evrópskri knattspyrnu," sagði Thaksin, sem á yfir höfði sér ákærur vegna fjármálamisferlis og spillingar í Tælandi en hann hefur búið í Englandi síðan honum var steypt af stóli í heimalandi sínu á síðasta ári. Taílenskir saksóknarar tilkynntu einmitt í morgun, að gefin hefði verið út ákæra á hendur Thaksin fyrir spillingu þar í landi.

John Wardle, núverandi stjórnarformaður, mun sitja áfram í nýrri stjórn félagsins. Þegar hafa handhafar 55 prósenta hlutar í City staðfest að þeir muni selja, og þar á meðal er einn stærsti hluthafinn, Francis Lee, fyrrum leikmaður félagsins og enska landsliðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert