Avram Grant: Ég ræð hjá Chelsea

Avram Grant segist ráða öllu varðandi fótboltann hjá Chelsea.
Avram Grant segist ráða öllu varðandi fótboltann hjá Chelsea. Reuters

Ísraelinn Avram Grant þvertekur fyrir að hann sé einhver strengjabrúða Romans Abramovichs hjá Chelsea og sagði í dag að hann réði öllu sem varðaði knattspyrnuna hjá félaginu. Grant var ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea í gær eftir að José Mourinho hætti óvænt störfum.

Grant sagði á blaðamannafundi í dag að markmið sitt væri að vinna titla með Chelsea og að lið sitt spilaði skemmtilegan fótbolta.

„Ég er sjálfstæður og hef tekið allar ákvarðanir sjálfur á mínum þjálfaraferli. Ef við töpum, verður það mér að kenna. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim árangri sem José Mourinho náði hjá félaginu og vil feta í fótspor hans og vinna sjálfur til afreka. En fótbolti er líka skemmtun. Við ætlum að vinna leiki og bikaran en við verðum líka að spila jákvæða knattspyrnu," sagði Grant, sem á síðasta ári var ráðinn til félagsins sem yfirmaður knattspyrnumála - vegna kunningsskapar síns við eigandann Roman Abramovich, að því er margir fullyrtu.

Bruce Buck, stjórnarformaður Chelsea, aftók með öllu að Grant hefði verið ráðinn vegna vináttu sinnar við Abramovich. „Roman Abramovich tekur ekki mikilvægar ákvarðanir út í loftið, eða vegna þess að einhver er vinur hans. Hann er mjög farsæll viðskiptajöfur og þessi ákvörðun var tekin í mikilli samvinnu við stjórn félagsins og ráðningin er vegna hæfileika viðkomandi.

Þegar við buðum Avram starfið á miðvikudaginn, vildi hann fá staðfestingu á því að hann væri sjálfstæður í starfi og stjórnaði liðinu. Þar vorum við samankomnir, ég , Peter Kenoyn, Eugene Tenenbaum (stjórnarmaður) og Roman Abramovich, og við samþykktum allir að hann stjórnaði liðinu alfarið," sagði Buck.

Fyrsta verkefni Grants er að fara með lið sitt norður til Manchester og leika þar gegn United á sjálfum Old Trafford á sunnudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert