Carvalho frá keppni í tvo mánuði

Ricardo Carvalho, varnarmaður Chelsea, verður frá keppni næstu tvo mánuðina vegna meiðsla í baki. Portúgalska knattspyrnusambandið tilkynnti þetta í dag en Carvalho átti að leika með Portúgölum gegn Armenum og Finnum í undankeppni EM á næstu dögum.

Carvalho meiddist í leik Chelsea gegn Everton í úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Læknir portúgalska landsliðsins sagði að meiðslin væru ekki alvarleg en nauðsynlegt væri fyrir hann að taka sér tveggja mánaða hvíld. Portúgalir eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Þar með eru tveir sterkustu miðverðir Chelsea úr leik en John Terry, fyrirliði liðsins og enska landsliðsins, er að jafna sig af meiðslum og verður ekki leikfær fyrr en í lok mánaðarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert