Graham Paddon er látinn

Graham Paddon, sem lék um árabil með Norwich og West Ham í efstu deild ensku knattspyrnunnar, lést í morgun, aðeins 57 ára að aldri, á heimili sínu í Norfolk-héraði.

Paddon hóf ferilinn hjá Coventry en fór þaðan til Norwich og spilaði með félaginu 1969 til 1973 og aftur frá 1976. Í þrjú ár þar á milli lék hann með West Ham og varð bikarmeistari með félaginu árið 1975. Hann var í liði Norwich sem lék til úrslita í deildabikarnum árið 1973.

Alls lék Paddon 340 leiki með Norwich og skoraði 37 mörk og með West Ham lék hann 150 leiki og skoraði 20 mörk. Undir lok ferilsins spilaði hann um skeið með Tampa Bay Rowdies í Bandaríkjunum, Millwall í Englandi og síðast með Eastern AA í Hong Kong.

Paddon gerðist þjálfari hjá Portsmouth árið 1985, fór til Stoke 1989 en kom aftur til Portsmouth og starfaði þar með Jim Smith knattspyrnustjóra frá 1991 til 1995, þegar báðum var sagt upp störfum. Síðar sá hann um að leita að leikmönnum fyrir Derby County.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert