Makelele fær að sleppa léttari leikjunum

Claude Makelele í baráttu við Færeyinginn Mikkjal Thomassen í Evrópukeppninni …
Claude Makelele í baráttu við Færeyinginn Mikkjal Thomassen í Evrópukeppninni í síðasta mánuði. Reuters

Claude Makelele, franski knattspyrnumaðurinn sem leikur með Chelsea, hefur upplýst að hann þurfi ekki að spila leiki félagsins gegn lakari liðunum í ensku úrvalsdeildinni og geti einbeitt sér að því að spila stóru leikina.

Makelele, sem er 34 ára varnartengiliður, sagði við franska íþróttadagblaðið L'Equipe að hann hefði gert samkomulag við knattspyrnustjórann, Avram Grant. „Hann veit hvernig best er að láta mig spila, og við erum með mjög vel mannaðan leikmannahóp. Hann þarf á mér að halda í stærstu leikjunum en getur fært menn til í hinum. Það hentar mér mjög vel, ég get hvílst og haldið mér í góðu formi," sagði Makelele.

Lið hans mætir botnliði Derby næsta laugardag, og ef að líkum lætur þarf Makelele ekki að eyða orku í þann leik. Makelele er samningsbundinn Chelsea til 2009 og stefnir á að spila með Frökkum í úrslitakeppni EM næsta sumar en sagði á dögunum að það yrði væntanlega svanasöngur sinn með franska landsliðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert