Ferguson: Ekkert við þessu að segja

Anton Ferdinand, lengst til vinstri, fagnar eftir að hafa jafnað …
Anton Ferdinand, lengst til vinstri, fagnar eftir að hafa jafnað metin. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United sagði að það væri í raun ekkert við því að segja að hafa tapað fyrir West Ham, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í dag því úrslitin hefðu verið fyllilega sanngjörn.

United var þó lengst af yfir eftir að Cristiano Ronaldo skoraði og virtist vera að tryggja sér sigurinn þegar hann tók vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleik. En Ronaldo skaut framhjá marki West Ham og í kjölfarið skoruðu miðverðirnir Anton Ferdinand og Matthew Upson og tryggðu Lundúnaliðinu óvæntan sigur, 2:1.

„Ég get ekki kvartað því betra liðið vann í dag. Við lékum langt undir getu. Ef við hefðum skorað úr vítaspyrnunni hefðum við gert útum leikinn en þegar liðið fær síðan á sig tvö mörk úr uppstilltum atriðum er ljóst að menn leika undir getu," sagði Ferguson við fréttamenn eftir leikinn.

Hann kvaðst ekki skilja í sínum mönnum, sérstaklega eftir frábæra frammistöðu gegn Sunderland á öðrum degi jóla þar sem þeir unnu stórsigur á útivelli, 4:0.

„Það er erfitt að átta sig á þessu en þeir eru mannlegir og það er ekki hægt að ætlast til þess  að þeir spili fullkomlega í hverjum leik. Við lékum frábærlega í Sunderland en þetta var slakur leikur. Við vorum í vandræðum sem liðsheild. Leikmenn West Ham börðust hinsvegar af miklum krafti og gáfu okkur aldrei frið. Þeir voru mjög innstilltir á þennan leik og líklega var þetta þeirra besta frammistaða í vetur," sagði Ferguson.

Alan Curbishley knattspyrnustjóri West Ham sagði að frammistaða sinna manna hefði verið frábær, ekki síst vegna þess hve marga vantaði vegna meiðsla. Tveir lykilmenn fóru síðan meiddir af velli, þeir Nolberto Solano og Scott Parker, á meðan staðan var 1:0 fyrir Manchester United.

„Það eru myndir af okkar leikmönnum á ganginum frá búningsklefunum og ég held að það hafi vantað heilan vegg í liðið í dag. En við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik og vorum mjög vonsviknir að vera undir að honum loknum. Mullins skaut í slá og Noble hefði getað skorað í kjölfarið. En úrslitin eru frábær, sérstaklega ef litið er á að við vorum með 16 heila leikmenn og misstum svo tvo þeirra," sagði Curbishley.

Hann sagði ennfremur að það hefði komið sér í opna skjöldu þegar Cristiano Ronaldo nýtti ekki vítaspyrnuna. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé hann skjóta fast úr vítaspyrnu og var afar undrandi þegar boltinn fór framhjá," sagði Curbishley.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert