Benítez: Gerðum allt nema skora

Joe Hart markvörður City var sóknarmönnum Liverpool erfiður og hér …
Joe Hart markvörður City var sóknarmönnum Liverpool erfiður og hér er Fernando Torres einn gegn honum en nær ekki að skora. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að það væri ekki hægt að gagnrýna leikmenn sína fyrir neitt í leiknum við Manchester City í dag, nema það að þeir skyldu ekki skora mörk.

Leikurinn endaði 0:0 þrátt fyrir þunga sókn Liverpool í síðari hálfleik og á köflum skothríð að marki Manchester City. Liverpool tókst því ekki að saxa á forskot þriggja efstu liða deildarinnar.

„Þetta var góður leikur, liðið spilaði mjög vel, skapaði sér færi og miðað við þau hefðum við átt að vinna, en það gekk ekki upp í dag. Markvörðurinn þeirra og varnarmennirnir áttu mjög góðan leik og þetta var ekki auðvelt því City hefur náð glæsilegum árangri á heimavelli.

Það er eiginlega ekki hægt að gagnrýna leikmennina því þeir lögðu afar hart að sér og sköpuðu sér góð marktækifæri. Svona er fótboltinn, við verðum að halda áfram, spila á þennan hátt og nýta færin betur," sagði Benítez við Sky Sports.

Hann var spurður hvort Liverpool myndi kaupa leikmenn í janúar. „Við erum með menn í sigtinu og peningar eru ekki vandamálið. Ég held að við munum kaupa þá menn sem við þurfum, kannski einn, kannski tvo, og það er á næstu grösum," sagði Benítez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert