Man. Utd lék Newcastle grátt, 5:1

Cristiano Ronaldo fagnar öðru marka sinna í dag.
Cristiano Ronaldo fagnar öðru marka sinna í dag. Reuters

Manchester United vann stóran útisigur á Newcastle, 5:1, í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann fór fram á St. James' Park.

Manchester United er þá komið með 61 stig í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Arsenal sem missti af dýrmætum stigum í uppbótartíma gegn Birmingham fyrr í dag, 2:2. Newcastle hefur ekki enn unnið deildaleik undir stjórn Kevins Keegans og er í 13. sætinu með 28 stig.

Man.Utd náði forystunni á 25. mínútu þegar Cristiano Ronaldo sendi boltann fyrir Newcastle frá vinstri og Wayne Rooney skoraði með viðstöðulausu skoti úr markteignum, 0:1.

Cristiano Ronaldo bætti við marki á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Michael Carrick í gegnum vörn Newcastle, 0:2.

Shay Given markvörður Newcastle þurfti að hætta keppni eftir fyrri hálfleik og Steve Harper kom í hans stað.

Ronaldo skoraði sitt annað mark á 57. mínútu þegar hann slapp innfyrir miðja vörn Newcastle, lék á Harper markmann og renndi boltanum í netið, 0:3.

Abdoulaye Faye minnkaði muninn fyrir Newcastle með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu á 79. mínútu, 1:3.

Wayne Rooney var fljótur að svara því á 80. mínútu skoraði hann sitt annað mark í leiknum með laglegu skoti frá vítateig, innanfótar í markhornið hægra megin, 1:4.

Það var svo Louis Saha sem innsiglaði sigurinn þegar ein mínúta var liðin af uppbótartíma eftir góðan undirbúning frá Rooney, 1:5.

Lið Newcastle: Given, Taylor, Beye, Faye, Duff, Butt, Milner, Barton, N'Zogbia, Smith, Owen.
Varamenn: Cacapa, Harper, Ameobi, Geremi, Carroll.

Lið Man.Utd: Van der Sar, Brown, Ferdinand, Vidic, Evra, Ronaldo, Carrick, Fletcher, Nani, Tévez, Rooney.
Varamenn: O'Shea, Scholes, Saha, Kuszczak, Anderson.

Charles N'Zogbia hjá Newcastle reynir að stöðva Carlos Tévez í …
Charles N'Zogbia hjá Newcastle reynir að stöðva Carlos Tévez í leiknum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert