John Terry: Erum í góðri stöðu

John Terry í baráttu við Jonny Evans í leik Chelsea …
John Terry í baráttu við Jonny Evans í leik Chelsea og Sunderland. DAVReuters

John Terry fyrirliði Chelsea segir að með góðu gengi undanfarnar vikur sé liðið komið í bullandi baráttu um Englandsmeistaratitilinn. Chelsea er þremur stigum á eftir Manchester United og Arsenal og á leik til góða á Arsenal en liðin mætast á Stamford Bridge um næstu helgi.

Chelsea lagði Sunderland á laugardaginn og er ósigrað í 12 leikjum í röð og hefur unnið níu þeirra.

„Við erum komnir í titilbaráttuna og erum í góðri stöðu. Við höfum hægt og bítandi komist á beinu brautina og liðið spilar vel um þessar mundir,“ segir Terry sem tryggði sínum mönnum sigurinn á Sunderland með sínu fyrsta marki á tímabilinu.

„Það var kominn tími á að skora. Þetta var fyrsta markið á tímabilinu og ég hreinlega veit ekki hvenær ég skoraði í deildinni síðast. Við vorum að reyna að rifja það upp í klefanum eftir leikinn og mér er sagt að ég hafi skorað síðast í deildinni í ágúst 2006. Nú vonast ég til þess að skora fleiri mörk áður en leiktíðinni lýkur. Fram undan eru margir stórleikir hjá okkur og ef mér tekst að skora fleiri mörk þá gæti það reynst okkur dýrmætt,“ sagði Terry við Sky Sports.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert