Stóru liðin fjögur mætast í dag

Alex Ferguson og Rafael Benítez mætast með lið sín á …
Alex Ferguson og Rafael Benítez mætast með lið sín á Old Trafford kl. 13.30. Reuters

Í dag dregur til tíðinda í baráttunni um enska meistaratitilinn í knattspyrnu þegar fjögur efstu liðin mætast í innbyrðis leikjum. Manchester United tekur á móti Liverpool klukkan 13.30 og Chelsea fær Arsenal í heimsókn á Stamford Bridge klukkan 16.00.

Þetta eru síðustu leikirnir í 31. umferð deildarinnar og geta haft afgerandi áhrif á lokasprettinn í deildinni. Þannig gæti Manchester United náð fimm stiga forystu en svo gætu málin líka þróast á þann veg að þrjú stig skilji að þrjú efstu liðin í lok dags og Liverpool myndi eygja von um að blanda sér frekar í slaginn.

Staða efstu liðanna er þessi:

70 Manchester United
67 Arsenal
65 Chelsea
59 Liverpool

Það er reyndar frekar langsóttur möguleiki að Liverpool blandi sér í baráttuna um meistaratitilinn, jafnvel þótt liðinu tækist að vinna á Old Trafford í dag.

Arsenal hefur gefið eftir í undanförnum leikjum, gert fjögur jafntefli í röð þar sem átta dýrmæt stig hafa farið í súginn og Manchester United hefur fyrir vikið komist á topp deildarinnar. Chelsea freistar þess að leika sinn 78. heimaleik í röð í deildinni án taps en síðast tapaði liðið í febrúar 2004, einmitt gegn Arsenal, 1:2.

Af þessum fjórum liðum hefur mesta siglingin verið á Liverpool undanfarnar vikur en strákarnir hans Rafaels Benítez hafa unnið sex síðustu leiki sína, með Fernando Torres í aðalhlutverki í framlínunni.

Manchester United er búið að vinna fjóra síðustu deildaleiki sína  gegn Liverpool og er því með gott tak á þessum erkifjendum sínum.

Chelsea er með gott tak á Arsenal og hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu ellefu leikjum liðanna í öllum mótum. En þrátt fyrir það hefur Arsenal aðeins tapað einu sinni í síðustu ellefu heimsóknum sínum á Stamford Bridge, unnið fjórum sinnum og gert þar sex sinnum jafntefli.

Chelsea hefur ekki tapað deildaleik síðan 16. desember þegar liðið beið lægri hlut fyrir Arsenal á Emirates-leikvanginum, 1:0. Frá þeim tíma hefur Chelsea unnið níu leiki í deildinni og gert fjögur jafntefli, síðast 4:4 við Tottenham á miðvikudaginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert