Eigendur Liverpool geta ekki unnið saman

Stuðningsmenn Liverpool hafa oft sýnt andúð sína í garð bandarísku …
Stuðningsmenn Liverpool hafa oft sýnt andúð sína í garð bandarísku eigendanna á leikjum liðsins. Reuters

George Gillett, annar bandarísku kaupsýslumannanna sem eiga enska knattspyrnufélagið Liverpool, upplýsti í dag að hann og Tom Hicks, hinn eigandinn, gætu ekki unnið saman lengur og þannig væri ástandið í raun búið að vera um nokkurt skeið.

Talið er að Hicks hafi að undanförnu unnið að því að eignast félagið sjálfur og hann hefur ýtt til hliðar mögulegri samvinnu við arabísku fjárfestana í Dubai International Capital, sem þó höfðu samþykkt að eiga 49 prósent í félaginu gegn 51 prósenti hjá honum.

Gillett sagði jafnframt í viðtali við kanadísku útvarpsstöðina Fan590 að fjölskylda sín hefði fengið líflátshótanir símleiðis um miðjar nætur. Hann væri eftir sem áður að íhuga það vandlega að eignast félagið sjálfur en það hefði verið frábær kostur fyrir Liverpool ef DIC hefði komið að eignarhaldinu.

„Við höfum verið mjög sanngjarnir og gáfum meðeiganda okkur gott svigrúm til að vinna að því að kaupa okkar hlut. Við settum ekki pressu á hann en að lokum fór þetta þannig að hann kláraði ekki dæmið. En á meðan urðu orð sem hann lét falla til þess að stuðningsmenn Liverpool urðu mjög neikvæðir í hans garð, og jafnframt í okkar garð ef við myndum selja honum okkar hlut, og það þýðir að slíkt kom ekki lengur til greina," sagði Gillett.

Meðal þess sem hann sagði í ítarlegu viðtalinu var að Hicks hefði hótað að koma í veg fyrir að hann gæti selt sinn hlut til DIC. „Það hefði verið mjög góður kostur fyrir félagið því þeir hjá DIC eru svo sannarlega auðugir, olíuverðið hækkar dag frá degi, og þeir eru dyggir stuðningsmenn Liverpool," sagði George Gillett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert