Wenger: Þetta er ekki búið

Arsene Wenger sýnir vonbrigði sín þegar dauðafæri Arsenal fer í …
Arsene Wenger sýnir vonbrigði sín þegar dauðafæri Arsenal fer í súginn í leiknum í dag. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal er vonsvikinn yfir því að lið sitt skyldi ekki ná að vinna Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag en segir að enn sé möguleiki á því að Arsenal verði enskur meistari.

Eftir jafnteflið, 1:1, er Arsenal fimm stigum á eftir Manchester United og þremur á eftir Chelsea, en United á auk þess leik til góða, gegn Middlesbrough á morgun.

„Í mínum huga er þetta ekki búið, vegna þess að enn eru fræðilegir möguleikar fyrir hendi. Þetta byggist á því hvernig úrslitin verða hjá keppinautum okkar. Miðað við stöðu okkar þurftum við á sigri að halda í dag, en maður veit aldrei hvað gerist, og við vonum það besta. Ég vona að við verðum ekki of langt á eftir þegar morgundagurinn er liðinn," sagði Wenger við fréttamenn eftir leikinn.

„Ég geri ekki ráð fyrir því að við verðum átta stigum á eftir United að leik loknum á morgun. Ég ætla að fylgjast með honum og við sjáum til hvað gerist."

Um leikinn sjálfan sagði Wenger: „Við náðum aldrei fullum tökum á honum. Stundum gerist það þegar lið mætast í hörkuleikjum, þá er sá næsti á eftir erfiður. Við erum vonsviknir, teljum að við höfum ráðið ferðinni allan síðari hálfleikinn og ég tel að enn og aftur hefðum við átt að fá vítaspyrnu. Það var augljóslega brotið á Cesc Fabregas en ekkert var dæmt. Það sést vel í sjónvarpinu, þetta er 100 prósent vítaspyrna. En við nýttum ekki okkar færi, sérstaklega þau sem við fengum í lokin, en Liverpool er alltaf hættulegt í skyndisóknum sínum."

Liverpool og Arsenal mætast í þriðja sinn á einni viku á þriðjudagskvöldið en þá eigast þau við í síðari leik sínum í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Báðir leikirnir í vikunni hafa endað 1:1. „Við munum jafna okkur eftir þennan leik, búa okkur vel undir þriðjudaginn og leggja allt í sölurnar. Við getum sigrað Liverpool á Anfield og einbeitum okkur alfarið að því," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert