Van der Vaart gefur Chelsea undir fótinn

Rafael van der Waart vill komast burt frá Þýskalandi.
Rafael van der Waart vill komast burt frá Þýskalandi. Reuters

Hollenski knattspyrnumaðurinn Rafael van der Vaart sem leikur með Hamburger SV í Þýskalandi hefur gefið til kynna að hann hafi áhuga á að fara til enska liðsins Chelsea í sumar en hann vill komast til stærra félags en þess þýska.

Van der Vaart sagði við þýska blaðið Sport Bild í dag að það væri útilokað fyrir sig að gefa einhver loforð varðandi áframhaldandi dvöl í Hamborg. „Ég vonast til að fá allt á hreint sem fyrst en ég get ekki farið að fullyrða í júlí að ég fari hvergi. Hvað ef Chelsea eða annað stórlið kemur í lok ágúst og býður 30 milljón evrur í mig? Ég myndi vilja fara, jafnvel þótt það væri á síðustu mínútu áður en lokað er fyrir félagaskiptin," sagði Hollendingurinn.

Chelsea hefur lengi verið orðað við van der Vaart sem er 25 ára gamall sóknartengiliður og hefur skorað 12 mörk í 50 landsleikjum fyrir Holland. Hann er að ljúka sínu þriðja tímabili með Hamburger SV en lék áður í fimm ár með Ajax þar sem hann skoraði 52 mörk í 117 deildaleikjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert