Benítez ætlar ekki með sterkasta liðið gegn Fulham

Rafael Benítez gefur ekki mikið fyrir gagnrýni frá Bolton.
Rafael Benítez gefur ekki mikið fyrir gagnrýni frá Bolton. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar ekki að fara að beiðni Garys Megsons, kollega síns hjá Bolton, sem vill að hann sendi sitt sterkasta lið í leikinn gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Bolton og Fulham eru í harðri fallbaráttu og Megson segir að Liverpool komi til með að hafa mikil áhrif á hvernig hún fer og hvaða lið falla að lokum. „Við vonumst eftir því að Rafa Benítez hafi hagsmuni úrvalsdeildarinnar í huga þegar hann velur lið sitt."

Benítez kveðst hafa um annað að hugsa, enda spili sitt lið afar mikilvægan leik gegn Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu strax á þriðjudagskvöldið. Í fyrra kom upp svipuð staða og þá var Benítez gagnrýndur af Sheffield United fyrir liðsval sitt.

„Ég veit að það var gagnrýni í gangi þegar við gerðum svipað í leik gegn Fulham og þá átti Sheffield United í hlut. En hvað gerðu þeir sjálfir í sínum síðasta leik? Þeir töpuðu. Ég tel að það sé stundum betra að einbeita sér að sjálfum sér og sínum leik. Hvert lið spilar 38 leiki á tímabilinu, sem ætti að vera nóg, og hver og einn er sinnar gæfu smiður," sagði Benítez, og benti síðan á fordæmi hjá Bolton.

„Hvað gerði Bolton í UEFA-bikarnum fyrr í vetur? Þeir hvíldu fullt af leikmönnum. Ég mun tefla fram leikmönnum sem ég tel að séu nægilega góðir til að tryggja okkur sigur í þessum leik og fleirum. Sjáið bara hvað öll liðin sem eru um miðja deild hafa gert að undanförnu. Þau hafa notað ýmsa leikmenn, unga stráka, og hugað að framtíðinni," sagði Benítez við BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert