Blackburn og Man. Utd skildu jöfn

Alex Ferguson gefur Wayne Rooney fyrirmæli í leiknum í dag.
Alex Ferguson gefur Wayne Rooney fyrirmæli í leiknum í dag. Reuters

Blackburn Rovers og Manchester United skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Ewood Park í dag. Carlos Tévez jafnaði metin fyrir United á 87. mínútu og það mark kann að reynast liðinu afar dýrmætt.

Manchester United er þá með 81 stig og Chelsea 78 þegar þremur umferðum er ólokið. Liðin mætast á Stamford Bridge um næstu helgi en vegna markatölunnar verður ekki nóg fyrir Chelsea að vinna þann leik, United verður að tapa stigi eftir það gegn West Ham eða Wigan til að Chelsea eigi möguleika á að hreppa meistaratitilinn. Af þeim sökum getur þetta stig sem United náði á Ewood Park í dag ráðið úrslitum þegar upp er staðið.

Blackburn náði forystunni á 21. mínútu. Eftir innkast hrökk boltinn af Rio Ferdinand varnarmanni Man.Utd og fyrir fæturna á Roque Santa Cruz í miðjum vítateignum og hann skoraði með föstu skoti, 1:0. Hans 20. mark á þessu tímabili.

Litlu munaði að Cristiano Ronaldo jafnaði metin á 43. mínútu. Hann átti skalla á mark af markteig eftir hornspyrnu en Brad Friedel í marki Blackburn varði glæsilega.

Ronaldo var aftur á ferð á 65. mínútu þegar hann átti skot í stöngina á marki Blackburn.

Á 79. mínútu munaði hársbreidd, í orðsins fyllstu merkingu, að Man. Utd næði að jafna. Ronaldo féll í návígi í vítateig Blackburn en boltinn hrökk til Carlos Tévez sem var í dauðafæri og þrumaði á markið. Brad Friedel varði vel, boltinn hrökk innað marklínunni en Friedel var eldsnöggur og gómaði hann áður en hann rann yfir línuna.

Friedel hélt áfram að fara á kostum og varði glæsilega á 85. og 87. mínútu. En á 88. mínútu kom hann engum vörnum við þegar Carlos Tévez jafnaði með skalla eftir hornspyrnu, 1:1.

Þeir Nemanja Vidic, Tomasz Kuszczak, Ryan Giggs og Carlos Tévez koma allir inní byrjunarlið Manchester United í dag en Blackburn er með óbreytt lið frá síðasta leik.

Lið Blackburn: Brad Friedel - Stephen Warnock, Ryan Nelsen, Christopher Samba, Steven Reid - David Bentley, Johann Vogel, Brett Emerton, Morten Gamst Pedersen - Jason Roberts, Roque Santa Cruz.
Varamenn: Jason Brown, David Dunn, Benni McCarthy, Andre Ooijer, Aaron Mokoena.

Lið Man.Utd: Tomas Kuszczak - Wes Brown, Rio Ferdinand, Nemanja Vidic, Patrice Evra - Cristiano Ronaldo, Michael Carrick, Paul Scholes, Ryan Giggs - Wayne Rooney, Carlos Tévez.
Varamenn: John O'Shea, Park Ji-sung, Gerard Pique, Luis Nani, Ben Foster.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka