Henry: Myndi bara leika með Arsenal

Thierry Henry í leik með Barcelona.
Thierry Henry í leik með Barcelona. Reuters

Thierry Henry, framherji Barcelona á Spáni, segist ánægður hjá félaginu og segir að hann muni ekki snúa aftur til Englands nema til að leika með Arsenal, en þar lék hann um árabil.

„Ég er ánægður hjá Barcelona og sé ekki eftir því að hafa farið frá Arsenal,“ sagði hinn þrítugi franski sóknarmaður við BBC Football Focus. „En það er aðeins eitt lið á Englandi fyrir mig. Allir vita hvaða hug ég ber til Arsenal. Það leið mér vel og tók ástfóstri við félagið þannig að ef ég fer aftur til Englands þá er það til að spila með Arsenal,“ sagði Henry.

Hann gerði 174 mörk í ensku deildinni í þeim 254 leikjum sem hann lék með Arsenal þar. Hann hefur í raun aðeins verið skugginn af sjálfum sér síðan hann fór til Barcelona í júní í fyrra og aðeins gert sjö mörk í 25 leikjum.

Hann hefur verið orðaður við nokkur lið á Englandi og er Newcastle þeirra á meðal. Spurður hvort hann vilji snúa aftur til England sagði hann: „Ég veit það ekki. Mér líður vel hjá Barcelona og á þrjú ár eftir af samningi mínum. En ég sakna Englands dálítið og horfi á alla leiki þaðan sem ég get. Ég var til dæmis að horfa á Stoke og Crystal Palace um daginn. Ég mun alltaf sakna enska boltans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert