Pulis sendi Íslendingunum sneið eftir að Stoke var komið upp

Gunnar Þór Gíslason, þáverandi stjórnarformaður Stoke, og Tony Pulis á …
Gunnar Þór Gíslason, þáverandi stjórnarformaður Stoke, og Tony Pulis á fundi í Reykjavík fyrir nokkrum árum. mbl.is/Eggert

Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke City, vék að samskiptum sínum við Íslendingana sem stýrðu félaginu í fyrra skiptið sem hann var þar við stjórnvölinn, eftir að hann hafði stýrt Stoke uppí ensku úrvalsdeildina í dag.

Íslendingarnir réðu Pulis til félagsins í árslok 2002 en ráku hann sumarið 2005 eftir að liðið hafði með naumindum haldið sæti sínu í 1. deild. Eftir að þeir seldu félagið á ný árið 2006 til fyrrum eiganda, Peter Coates, lét hann það vera sitt fyrsta verk að ráða Pulis aftur til félagsins.

„Ég verð að þakka stjórnarformanninum sérstaklega fyrir hans þátt. Hann sýndi mikinn styrk með því að kaupa félagið og setti mikla peninga í það. Þegar hann hafði samband við mig var ég hjá fínu félagi, Plymouth. En fyrst Peter var tilbúinn til að snúa aftur og leiða félagið fram á veginn á ný, gat ég ekki neitað honum.

Síðast þegar ég var hjá Stoke var ég gagnrýndur fyrir að standa mig ekki betur þrátt fyrir að ég fengi ekki peninga til að gera meira en að vera við botn deildarinnar. Það kom ekki til greina að snúa aftur nema ljóst væri að ég gæti verið með samkeppnishæft lið. Peter sagði að þannig yrði það, og stóð við orð sín. Allt sem hann hann lofaði hefur gengið eftir. Þetta er stór dagur fyrir félagið og tækifæri fyrir okkur til að byggja ofaná það sem gert hefur verið til þessa," sagði Pulis við BBC eftir jafnteflið við Leicester í dag, 0:0, sem tryggði félaginu sæti í efstu deild eftir 23 ára fjarveru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert