Terry: United er búið að toppa

Terry skellti sér í markið á æfingu í gær.
Terry skellti sér í markið á æfingu í gær. Reuters

Fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, miðvörðurinn John Terry, segir marga leikmenn Englands- og Evrópumeistara Manchester United hafa verið á hátindi ferils síns síðustu leiktíð og að liðið muni ekki leika betur á komandi keppnistímabili.

„[Alex Ferguson] veit að við vorum ekki langt frá þeim [United-mönnum] þó þeir væru í sínu besta formi. Ég held að þeir geti ekki spilað betur. Margir af leikmönnum liðsins hafa sýnt sínar allra bestu hliðar á síðustu tveimur árum,“ sagði Terry.

„Rio [Ferdinand] er búinn að vera magnaður síðustu tvö ár, Ronaldo hefur verið ótrúlegur og ég held að maður muni ekki sjá annað eins aftur. Wayne Rooney, Carlos Tevez og Ryan Giggs eru allir búnir að vera frábærir. Miðað við þau meiðsli sem við höfum glímt við tel ég hins vegar að við getum bætt okkur nokkuð,“ bætti Terry við og hann telur lykilatriði að Chelsea verði ekki jafn óheppið með meiðsli á næstu leiktíð.

„Það var svo stutt á milli liðanna í bæði úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu að þeir [United-menn] vita að við munum veita þeim harða keppni. Við höfum glímt við meiðsli og þurft að skipta um þjálfara en ef okkur tekst að forðast meiðsli, sérstaklega um jólin, mun okkur vonandi ganga vel. Það var hrikalegt að sjá þá vinna Englandsmeistaratitilinn. Við viljum fá hann aftur og á það stefnum við.“

Terry fagnar komu Portúgalans Felipe Scolari og segir hana veita ákveðna öryggistilfinningu.

„Við þurftum oft að koma saman á síðustu leiktíð vegna þjálfaraskiptanna en leikmennirnir tóku fulla ábyrgð og reyndu að hvetja hvern annan áfram, og ég sá liðið vaxa og dafna sem heild.

Þjálfarinn er gefinn fyrir glens og gaman utan vallar en innan vallar vill hann að hlutirnir séu gerðir með réttum hætti og það er alltaf þannig hjá okkar félagi. Maður vill ekki valda honum vonbrigðum og hann fær virðingu allra leikmanna vegna þess sem hann hefur áorkað í gegn um tíðina,“ sagði Terry.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert