Vilja að Ferguson stýri Ólympíuliði Breta 2012

Verður Alex Ferguson með lið Breta á ÓL 2012?
Verður Alex Ferguson með lið Breta á ÓL 2012? Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segir að hann hafi rætt við landa sinn frá Skotlandi, Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, um að stýra sameiginlegu liði Bretlands í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna í London árið 2012.

Brown staðfesti þetta við BBC og íþróttamálaráðherrann Gerry Sutcliffe sagði í viðtali þar að árangur Fergusons á ferlinum sýndi að hann væri rétti maðurinn til að taka þetta að sér.

„Ég hef rætt við Alex Ferguson um að taka þetta að sér. Það yrði að ræða  formlega við hann af réttum aðilum en hann er einn þeirra sem koma til greina og hann hefur ekki sagt nei," sagði Brown í hádegisþætti BBC í gær.

Ferguson hefur sjálfur sagt um þessar vangaveltur að það sé útilokað fyrir sig að festa eitthvað fjögur ár framí tímann. „Ég verð sjötugur árið 2012 og get ekki samþykkt að gera eitthvað eftir fjögur ár," sagði Ferguson.

Bretar hafa ekki sent knattspyrnulið á Ólympíuleikana í 48 ár, enda hafa ríkin innan Stóra-Bretlands ávallt verið með sjálfstæð landslið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert