Bolton slegið út af 2. deildarliði

Grétar Rafn Steinsson í leik með Bolton.
Grétar Rafn Steinsson í leik með Bolton. Reuters

Óvænt úrslit urðu í 2. umferð ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld þegar úrvalsdeildarlið Bolton tapaði á heimavelli fyrir 2. deildarliðinu Northampton, 2:1. Grétar Rafn Steinsson og Heiðar Helguson léku allan tímann fyrir Bolton sem lék manni færri frá 36. mínútu þegar Gary Cahill var vikið af velli.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan tímann með Coventry sem tapaði í framlengdum leik gegn Newcastle á heimavelli, 3:2. Newcastle komst í 2:0 en 1. deildarliðinu tókst að jafna metin og kom jöfnunarmarkið í uppbótartíma eftir gríðarlega langt innkast Arons. Í framlengingunni tryggði Michael Owen Newcastle sigurinn.

Íslendingaliðið Reading vann stórsigur á Luton, 5:1. Ívar Ingimarsson kom inná á 21. mínútu og hinn ungi Gylfi Þór Sigurðsson lék síðasta hálftíma hálftíma leiksins. Hvorki Ívar né Gylfi náðu að skora fyrir Reading.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék síðustu 33 mínúturnar fyrir Burnley sem vann öruggan sigur á Oldham, 3:0.

Stoke marði Cheltenham, 3:2, á útivelli þar sem Joe Parkin skoraði sigurmarkið 12 mínútum fyrir leikslok.

Wigan burstaði Notts County, 4:0, þar sem Henry Camara skoraði tvívegis.


 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert