Chelsea hefur spilað 84 leiki í röð án taps á heimavelli í deildinni

Cristiano Ronaldo og Michael Ballack í baráttu í leik Chelsea …
Cristiano Ronaldo og Michael Ballack í baráttu í leik Chelsea og United á síðustu leiktíð. Reuters

Sannkallaður stórleikur er á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn þegar Englands- og Evrópumeistarar Manchester United sækja Chelsea heim á Stamford Bridge. Chelsea hefur ekki tapað leik í úrvalsdeildinni á þessu ári, eitt liða, og árangur Chelsea á heimavelli í úrvalsdeildinni er hreint magnaður.

Chelsea hefur ekki tapað á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í 84 leikjum í röð eða í fjögur og hálft ár en síðasta liðið til að leggja Chelsea að velli á Stamford Bridge var Arsenal í febrúarmánuði 2004.

Chelsea er ósigrað í síðustu 25 leikjum í úrvalsdeildinni en síðasti ósigur liðsins leit dagsins ljós í desember í fyrra þegar liðið tapaði, 1:0, fyrir Arsenal á Emirates Stadium. Á þessu ári hefur Chelsea leikið 22 leiki í úrvalsdeildinni. Liðið hefur unnið 16 þeirra og gert 6 jafntefli.

Chelsea verður án Michael Essien sem í vikunni gekkst undir aðgerð á hné.

Manchester United hefur hikstað nokkuð í upphafi leiktíðarinnar og tapi liðið á sunnudaginn jafnar liðið slökustu byrjun sína frá stofnun úrvalsdeildarinnar. United hefur tapað 10 leikjum á móti Chelsea í úrvalsdeildinni, fleiri en á móti nokkru öðru liði.

Manchester United hefur 4 stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í deildinni og ekkert lið í deildinni hefur skorað færri mörk en meistararnir hafa einungis skorað þrjú mörk.

Manchester United fagnaði síðast sigri á Stamford Bridge í apríl 2002. United vann þá 3:0 með mörkum frá Paul Scholes, Ruud van Nistelrooy og Ole Gunnari Solskjær.

Nemanja Vidic tekur út leikbann hjá United og þá er Michael Carrick frá vegna meiðsla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert