Benítez í vanda vegna meiðsla

Liverpool leikur í Eindhoven annað kvöld.
Liverpool leikur í Eindhoven annað kvöld. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, er í vandræðum með að stilla upp liði sínu fyrir leikinn gegn PSV Eindhoven í Meistaradeild Evrópu sem fram fer í Hollandi annað kvöld.

Þeir Javier Mascherano, Dirk Kuyt og Ryan Babel meiddust allir í leik Liverpool gegn Blackburn á laugardaginn, þannig að óvíst er með þátttöku þeirra, og Xabi Alonso er tæpur vegna álags. Sami Hyypiä er ekki löglegur í Evrópukeppninni þar sem hann var ekki skráður í leikmannahóp liðsins þar, og þeir Fernando Torres, Fabio Aurelio og Martin Skrtel eru allir örugglega frá vegna meiðsla.

Benítez kallar væntanlega Robbie Keane inní liðið á ný eftir að hafa hvílt hann gegn Blackburn og hann á líklega ekki annarra kosta völ en að nota Alonso og Steven Gerrard á miðjunni þrátt fyrir mikið álag á þeim báðum.

Liverpool er komið í 16-liða úrslitin ásamt Atlético Madrid en liðin eru jöfn að stigum og sigurvegari riðilsins nýtur þeirra forréttinda að leika seinni leik 16-liða úrslitanna á heimavelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert