Friðarboðskapur hjá Ferguson

Alex Ferguson vill friðmælast við Middlesbrough.
Alex Ferguson vill friðmælast við Middlesbrough. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hefur rétt fram sáttahönd til Middlesbrough í tilefni jólanna og óskar þess að leikur liðanna í ensku úrvalsdeildinni á mánudagskvöldið fari fram í anda hátíðanna. Það hefur ekki beinlínis verið kært á milli liðanna undanfarin misseri.

Mikið hefur gengið á þegar þau hafa mæst og forráðamenn og leikmenn Middlesbrough hafa verið sérstaklega pirraðir útí Cristiano Ronaldo, portúgalska kantmanninn hjá United. Þeir hafa ítrekað sakað hann um leikaraskap, eftir að hann hefur fengið tvær vítaspyrnur í leikjum liðanna í deild og bikar.

Gareth Southgate knattspyrnustjóri Middlesbrough ásakaði Ronaldo opinberlega um leikaraskap í annað skiptið. Í seinna skiptið brást James Morrison, leikmaður Boro, við því með því að brjóta gróflega á Ronaldo við fyrsta tækifæri. Hann fékk rauða spjaldið en Southgate virtist leggja blessun sína yfir brotið eftir leikinn.

Þegar liðin áttust við í deildabikarnum í haust braut Emmanuel Pogatetz, varnarmaður Middlesbrough, gróflega á Rodrigo Possibon, miðjumanni United, og Ferguson hellti úr skálum reiði sinnar yfir leikmanninn og forráðamenn liðsins fyrir að gefa í skyn að Possebon hefði sýnt af sér leikaraskap.

„Það hafa verið nokkrir hitaleikir á milli liðanna síðustu árin og það braust út í deildabikarleiknum í haust þar sem Possebon hefði hæglega getað fótbrotnað. Ég missti þá stjórn á skapi mínu en vonandi hefur þessi tækling orðið til þess að bæði félög áttuðu sig á því sem gengið hefur á. Mér fannst stórt skref vera stigið í rétta átt þegar knattspyrnustjóri þeirra og þjálfari báðust afsökunar á orðum sem féllu í hita leiksins. Vonandi endist jólaskapið nógu lengi til að breiða endanlega yfir þá heift sem hefur ríkt á milli liðanna," sagði Ferguson á vef félagsins.

„Ég held að núna átti allir sig á því að þetta er fótbolti en ekki stríð. Ég er viss um að við getum byggt upp betri samskipti milli félaganna. Ekki síst vegna þess að margir leikir okkar gegn þeim hafa haft úrslitaáhrif fyrir okkur. Það er alltaf mikil stemmning þegar þau mætast," sagði Ferguson og hrósaði jafnframt Southgate fyrir sín störf. Þegar Southgate var ráðinn á sínum tíma, án þess að hafa tilskilin réttindi, gagnrýndi Ferguson ráðningu hans mjög.

"Ég dáist að því sem Gareth Southgate hefur gert hjá Middlesbrough. Hann er ungur stjóri sem hefur  tekið djarfar ákvarðanir í uppbyggingu liðsins, ýtt eldri mönnum til hliðar og komið fram með ungan og frískan leikmannahóp. Slíkar breytingar eru eitt það erfiðasta í okkar starfi og ég get ekki annað en dáðst að metnaði hans og sannfæringu. Hann hefur fylgt eftir stefnu sem hefur gjörbreytt ásýnd liðsins, án þess að það hafi kostað hann of mikið varðandi stöðu þess í deildinni," sagði Alex Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert