Chelsea missti dýrmæt stig gegn Fulham

Simon Davies hjá Fulham reynir að stöðva Joe Cole hjá …
Simon Davies hjá Fulham reynir að stöðva Joe Cole hjá Chelsea í leiknum í dag. Reuters

Chelsea tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag þegar liðið gerði jafntefli við Fulham, 2:2, í nágrannaslag á Craven Cottage. Það þýðir að Liverpool er með þriggja stiga forystu um áramót, 45 stig gegn 42 hjá Chelsea.

Clint Dempsey, bandaríski varnarmaðurinn, skoraði bæði mörk Fulham en hann jafnaði metin þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma, 2:2. Frank Lampard skoraði bæði mörk Chelsea.

West Ham knúði fram sigur á Stoke, 2:1, með marki frá Diego Tristan rétt fyrir leikslok. Botnlið WBA náði að sigra Tottenham, 2:0, Arsenal vann Portsmouth, 1:0, með marki frá William Gallas, Everton lagði Sunderland örugglega, 3:0, og Wigan vann Bolton á útivelli, 1:0.

Þannig gengu leikirnir fyrir sig. Með því að smella á "bein lýsing" fyrir aftan hvern fyrir sig er hægt að skoða nákvæma atvikalýsingu frá viðkomandi leik:

Arsenal - Portsmouth 1:0, bein lýsing.
Hermann Hreiðarsson var varamaður hjá Portsmouth og kom ekki við sögu.
William Gallas skoraði sigurmark Arsenal á 81. mínútu.

Bolton - Wigan 0:1, bein lýsing.
Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn með Bolton og fékk gula spjaldið á 28. mínútu. Amr Zaki kom Wigan yfir á 44. mínútu úr vítaspyrnu, 0:1.

Everton - Sunderland 3:0, bein lýsing.
Mikel Arteta kom Everton yfir á 10. mínútu og skoraði aftur á 27. mínútu, 2:0. Dan Gosling bætti við þriðja markinu á 83. mínútu.

Fulham - Chelsea 2:2, bein lýsing.
Clint Dempsey kom Fulham yfir á 10. mínútu en Frank Lampard jafnaði fyrir Chelsea, 1:1, á 50. mínútu. Lampard var aftur á ferð á 73. mínútu þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu, 1:2. Dempsey skoraði aftur fyrir Fulham þegar hann jafnaði, 2:2, með skalla eftir hornspyrnu á 89. mínútu.

WBA - Tottenham 2:0, bein lýsing.
Benoit Assou-Ekotto hjá Tottenham fékk rauða spjaldið á 35. mínútu. Roman Bednar kom WBA yfir á 83. mínútu og Craig Beattie bætti við marki í blálokin.

West Ham - Stoke 2:1, bein lýsing.
Abdoulaye Faye kom Stoke yfir á 4. mínútu. Carlton Cole jafnaði fyrir West Ham, 1:1, á 51. mínútu og á 53. mínútu fékk Ricardo Fuller hjá Stoke rauða spjaldið. Diego Tristan kom West Ham yfir á 88. mínútu, 2:1.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert