Nottingham Forest skellti City - Southend náði jöfnu gegn Chelsea

Grétar Rafn Steinsson er í liði Bolton sem leikur gegn …
Grétar Rafn Steinsson er í liði Bolton sem leikur gegn Sunderland. Reuters

Óvænt úrslit litu dagsins ljós í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í dag. Nottingham Forest sem er á meðal neðstu liðanna í 1. deildinni lagði Manchester City á útivelli, 3:0, og á Stamford Bridge varð Chelsea að sætta sig við 1:1 jafntefli við 2. deildarliðið Southend.

Fjögur úrvalsdeildarlið féllu úr leik og fimm verða að spila að nýju en eins og jafnan var mikið fjör í bikarleikjunum.

Peter Clarke tryggði Southend jafntefli gegn Chelsea þegar hann jafnaði metin á lokamínútunni en hann hélt í dag upp á 27 ára afmæli sitt. Mark Chelsea skoraði Salomon Kalou. Chelsea stillti upp sterku liði en liðið verður að mæta Southend á útvelli.

Stuðningsmenn Manchester City bauluðu á leikmenn liðsins og knattspyrnustjórann eftir 3:0 tap liðsins á heimavelli gegn Nottingham Forest. Nathan Tyson og Rob Earnshaw skoruðu í fyrri hálfleik og Joe Garner bætti þriðja markinu við í seinni hálfleik en Billy Davies var að stýra liði Forest í fyrsta sinn.

Bikarmeistarar Portsmouth urðu að láta sér lynda markalaust jafntefli við 1. deildarlið Bristol City. Hermann Hreiðarsson sat allan tímann á bekknum hjá Portsmouth sem þótti leika afar illa.

Robin Van Persie skoraði tvö af mörkum Arsenal sem lagði 1. deildarlið Plymouth en þriðja markið var sjálfsmark.

Grétar Rafn Steinsson lék allan tímann fyrir Bolton sem tapaði fyrir Sunderland, 2:1, á Leikvangi ljóssins. Kenwyne Jones og Djibril Cisse komu Sunderland í 2:0 en Ebi Smolarek minnkaði muninn fyrir Bolton.

Gylfi Þór Sigurðsson lék síðustu 12 mínúturnar fyrir Reading sem tapaði 2:0 fyrir Cardiff. Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru hvíldir í liði Reading.

Aron Einar Gunnarsson lék allan tímann fyrir Coventry sem lagði utandeildarliðið Kidderminster, 2:0.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan tímann með Burnely sem gerði markalaust jafntefli við QPR. Heiðar Helguson var ekki í leikmannahópi QPR.

Guðjón Þórðarson stýrði liði Crewe í fyrsta sinn en liðið gerði 2:2 jafntefli á útivelli gegn Millwall.

West Ham átti ekki í vandræðum með Barnley en 3:0 urðu lokatölurnar á Upton Park. Herita Ilunga, Mark Nobble og Carlton Cole gerðu mörk Íslendingaliðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert