Tévez ósáttur við Alex Ferguson

Carlos Tévez er ekki ánægður með stöðu sína hjá Manchester …
Carlos Tévez er ekki ánægður með stöðu sína hjá Manchester United. Reuters

Argentínski sóknarmaðurinn Carlos Tévez lýsti í dag yfir óánægju með framgang mála hjá sér hjá Manchester United í samtali við útvarpsstöð í heimalandi sínu og sagði að Alex Ferguson knattspyrnustjóri færi rangt með þegar hann talaði um sín samningamál.

„Ef eitthvert annað félag býður mér fimm ára samning verð ég að íhuga það vel um leið og ég skoða framtíðina fyrir mína fjölskyldu. Mig langar til að vera áfram hjá United en ég hef ekki fengið tilboð frá félaginu í hálft annað ár. Þegar Ferguson talar um hve mjög hann sé ánægður með mig verð ég alltaf jafn hissa á því að hann skuli ekki hafa gert mér tilboð. Mér finnst það furðulegt," sagði Tévez við útvarpsstöðina Radio Del Plata.

„Ég var ekki hress þegar hann sagði að ég hefði verið ósáttur við tilboðið sem ég fékk, vegna þess að hvorki ég né umboðsmaður minn höfum fengið tilboð í hendurnar. Ég veit ekkert um mína framtíð. Forráðamenn United vita að hvað þeir þurfa að greiða mér ef ég verð áfram. Ef ég verð að hverfa á braut, verður svo að vera," sagði Tévez, sem hefur verið orðaður við bæði Real Madrid og Manchester City.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert