Wigan og Liverpool skildu jöfn - Van Persie kom Arsenal til bjargar

Jamie Carragher í baráttu við Egyptann Mido.
Jamie Carragher í baráttu við Egyptann Mido. Reuters

Liverpool tapaði tveimur dýrmætum stigum í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Liverpool sótti Wigan heim og skildu liðin jöfn, 1:1. Chelsea lagði Middlesbrough, 2:0, og Everton og Arsenal skildu jöfn þar sem Robin Van Persie jafnaði metin fyrir Arsenal í uppbótartíma.

Yossi Benayoun kom Liverpool yfir í fyrri hálfleik en Egyptinn Mido jafnaði metin fyrir Wigan með marki úr vítaspyrnu 10 mínútum fyrir leikslok.

Chelsea er komið í annað sætið eftir 2:0 sigur á Middlesbrough. Chelsea og Liverpool hafa 48 stig en markatala Chelsea er betri. Manchester United trónir á toppnum með 50 stig. Salomon Kalou skoraði bæði mörk Chelsea í seinni hálfleik.

Það leit allt út fyrir sigur Everton gegn Arsenal á Goodison Park. Tim Cahill kom Everton í 1:0 með fallegu skallamarki á 60. mínútu en í uppbótartíma tókst Robin Van Persie að jafna metin.

Textalýsing frá leikjum kvöldins er hér að neðan:

Wigan - Liverpool, 1:1, leik lokið

Robbie Keane er á meðal varamanna hjá Liverpool sem freistar þess að ná Manchester United að stigum.

41. Ísraelsmaðurinn Yossi Benayoun er búinn að brjóta ísinn fyrir Liverpool með fallegu marki eftir glæsilega sendingu frá Javier Mascherano.

Minnstu munaði að Steven Gerrard bætti öðru marki við fyrir Liverpool á lokamínútum fyrri hálfleiks en skot hans úr aukaspyrnu fór hárfínt framhjá markinu.

81. Egyptinn Mido er búinn að jafna metin fyrir Wigan með marki úr vítaspyrnu. Vítið var dæmt á Lucas fyrir að brjóta á Jason Koumas.

Engu munaði að Hugo Rodallega kæmi Wigan yfir en aðeins frábær markvarsla Pepe Reina kom í veg fyrir það.

Chelsea - Middlesbrough, 2:0, leik lokið

Didier Drogba er á meðal varamanna hjá Chelsea.

Búið er að flauta til hálfleiks á Stamford Bridge þar sem staðan er, 0:0. Stuðningsmenn Chelsea baula á leikmenn liðsins þegar þeir ganga af leikvelli og ljóst er að heimamenn verða að gera betur í seinni hálfleik ætli þeir að innbyrða þrjú stig.

Didier Drogba er skipt inná í hálfleik fyrir Florent Malouda.

58. 1:0 Eftir þunga sókn Chelsea-manna barst boltinn til Salomon Kalou sem skoraði með þrumuskoti framhjá varnarmúr Middlesbrough. Þetta er hans fyrsta mark í úrvalsdeildinni frá því í október.

81. Salomon Kalou er að tryggja Chelsea stigin þrjú með sínu öðru marki.

Leiknum er lokið á Stamford Bridge. Chelsea er komið upp í annað sætið en liðið hefur jafnmörg stig og Liverpool en hefur betri markatölu.

Manchester City - Newcastle, 2:1, leik lokið

Craig Bellamy og Nigel de Jong leika sinn fyrsta leik með Manchester City sem teflir fram Brasilíumanninum Robinho. Markvörðurinn Shay Given er ekki í leikmannahópi Newcastle og hefur væntanlega leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

17. Shaun Wright-Phillips skoraði með góðu skoti sem Steven Harper markvörður gestanna réð ekki við.

79. Craig Bellamy er búinn að opna markareikning sinn fyrri Manchester City en Walesverjinn er búinn að koma City í 2:0.

Blackburn - Bolton, 2:2, leik lokið

Grétar Rafn Steinsson er í byrjunarliði Bolton.

12. Matthew Taylor er búinn að koma gestunum yfir á Ewood Park þar sem Sam Allardyve stýrir heimamönnum gegn sínu gamla félagi.

35. Kevin Davies hefur bætt við öðru marki við fyrir Bolton eftir fyrirgjöf frá Grétari Rafni Steinssyni.

64. Stephen Warnock hefur gefið heimamönnum von en hann er búinn að minnka muninn í 1:2.

67. Jussi Jaaskelainen markvörður Bolton ver vítaspyrnu frá Benni McCarthy.

87. Benni McCarthy bætti upp fyrir vítaspyrnuna en Suður-Afríkumaðurinn er búinn að jafna metin fyrir heimamenn í æsispennandi leik.

Everton - Arsenal, 1:1, leik lokið

Everton hefur endurheimt Belgann sterka Marouane Fellaini úr leikbanni og Spánverjann Mikel Arteta úr meiðslum. Hjá Arsenal eru William Gallas og Gael Clichy komnir inn í liðið á nýjan leik eftir leikbann og meiðsli.

50. Denilson er klaufi að koma ekki Arsenal yfir á Goodison Park en skot Brasilíumannsins úr góðu færi fór yfir.

60. Tim Cahill er búinn að koma Everton yfir með glæsilegu skallamarki. Þetta er 100. mark Ástralans í ensku knattspyrnunni.

90. Robin van Persie er að jafna metin fyrir Arsenal í uppbótartíma. Hollendingurinn skoraði með góðu skoti úr frekar þröngu færi.

West Ham - Hull City, 2:0, leik lokið

21. Matt Duke markvörður Hull ver vítaspyrnu frá miðjumanninum Mark Noble sem dæmd var á Samuel Ricketts fyrir að brjóta á Carlton Cole.

31. Ítalinn David di Michele er búinn að koma Íslendingaliðinu í forystu gegn nýliðunum á Upton Park.

52. Carlton Cole er enn á skotskónum fyrir West Ham en framherjinn er búinn að koma heimamönnum í 2:0 og margir spá því að hann fái senn tækifæri með enska landsliðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert