Innbrot á heimili Fletchers og unnustu hans ógnað með hnífi

Darren Fletcher leikmaður Manchester United og skoska landsliðsins.
Darren Fletcher leikmaður Manchester United og skoska landsliðsins. Reuters

Brotist var inn á heimili skoska landsliðsmannsins Darren Fletchers, leikmanns Englandsmeistara Manchester United, í gærkvöld og var unnustu hans ógnað með hnífi.

Fletcher var ekki heima þar sem hann var farinn með liði Manchester United til Mílanó en unnusta hans, Hayley Grice, var heima ásamt tvíburum þeirra og þá var móðir Grice á staðnum.

Innbrotsþjófarnir, þrír að tölu, ógnuðu unnustu Fletchers og móður hennar með hnífi og höfðu á brott með sér úr, skartgripi og fleiri hluti.

Fletcher er enn einn atvinnuknattspyrnumaðurinn á Englandi sem verður fyrir barðinu á innbrotsþjófagengi en leikmenn Liverpool hafa sérstaklega verið skotspónn innbrotsþjófa síðustu mánuðina.

Skemmst er að minnast þess að brotist var inn á heimili Stevens Gerrard fyrirliða Liverpool en aðrir leikmenn liðsins og fyrrum leikmenn Liverpool sem hafa fengið óboðna gesti á heimili sitt eru: Dirk Kuyt, Pepe Reina, Jerzy Dudek, Daniel Agger, Peter Crouch og Florent Sinama-Pongolle.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert