Innköstin hjá Aroni leynivopn Íslands

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Kristinn

Aron Einar Gunnarsson segir við skoska fjölmiðla í dag að löngu innköstin hans muni eflaust skapa hættu í vörn Skota í landsleiknum gegn Íslendingum á Hampden Park annað kvöld. Aron Einar, sem leikur með Coventry í ensku 1. deildinni, hefur vakið mikla athygli á Bretlandseyjum fyrir gríðarlega löng innköst en hann segir að handboltaæfingar með Þór frá Akureyri á yngri árum séu leyndarmálið á bak við innköstin.

Leikur Skotlands og Íslands er gríðarlega mikilvægur í baráttunni um annað sætið í 9. riðli í undankeppni HM en það er ekkert leyndarmál að Hollendingar eru með langsterkasta liðið í þessum riðli.

„Ég mun að sjálfsögðu nota löngu innköstin gegn Skotum og við sjáum til hvað það skilar okkur. Boltinn mun fara eins langt og ég get kastað,“ sagði Aron í gær í Skotlandi en hann segir að Ísland eigi annað leynivopn, Eið Smára Guðjohnsen. „Eiður er frábær leikmaður og þeir sem komast að hjá Barcelona eru allir í sérflokki,“ sagði Aron Einar en Eiður Smári skoraði eina mark Íslands í 2:1 tapinu gegn Skotum á Laugardalsvelli s.l. haust.

Aron viðurkennir að gæðin í skoska landsliðinu séu meiri en í því íslenska. „Við þurfum að mæta tilbúnir til leiks og hafa hugann við okkar leik. Skotar eru líklegastir til þess að ná öðru sætinu í þessum riðli en það er aldrei að vita hvað gerist. Við þurfum að bíða og sjá hvað verðurm“ sagði Aron.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert