Úlfarnir í úrvalsdeildina

Wolverhampton Wanderers, eða Úlfarnir eins og þeir eru gjarnan kallaðir hér á landi, tryggðu sér í dag sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir fimm ára fjarveru með því að sigra QPR, lið Heiðars Helgusonar, 1:0.

Sylvan Ebanks-Blake skoraði sigurmarkið, hans 25. mark í deildinni í vetur, snemma í síðari hálfleiknum. Allt bendir til þess að Úlfarnir verði jafnframt meistarar í 1. deildinni en þeir eru sex stigum á undan Birmingham þegar tveimur umferðum er ólokið, og að auki með tíu mörkum betri markatölu.

„Ég get varla lýst tilfinningum mínum, ég er algjörlega í skýjum yfir árangri liðsins í vetur. Ég er afar stoltur af leikmönnum liðsins, þeir hafa verið stórkostlegir allt tímabilið," sagði Mick McCarthy, knattspyrnustsjóri BBC, við Wolves þegar ljóst var að sætið var í höfn.

Birmingham og Sheffield United berjast um annað sætið en Birmingham er með fjórum stigum meira og á tvo leiki eftir en Sheffield United á eftir þrjá leiki. Tvö efstu liðin fara beint upp en liðin í sætum þrjú til sex fara í umspil um eitt sæti. Í þeim sætum eru nú Sheffield United, Cardiff, Reading og Burnley, en bæði Swansea og Preston eiga enn möguleika á að ná þangað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka