Liverpool í toppsætið - Arshavin með fernu fyrir Arsenal

Andrei Arshavin fagnar marki sínu á Anfield í kvöld.
Andrei Arshavin fagnar marki sínu á Anfield í kvöld. Reuters

Liverpool var að tylla sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar með því að gera 4:4 jafntefli gegn Arsenal í hreint mögnuðum fótboltaleik, álíka þeim sem fram fór á Stamford Bridge í síðustu viku þegar Liverpool og Chelsea gerðu 4:4 jafntefli í Meistaradeildinni.

Rússneski framherjinn Andrei Arshavin var maður kvöldsins en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði öll fjögur mörk Arsenal en hann kom liði sínu þrívegis í forystu. Fernando Torres og Yossi Benayoun gerðu tvö mörk hvor fyrir Liverpool og jafnaði Benayon metin í 4:4 á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Liverpool og Manchester United hafa bæði 71 sti. Markatala Liverpool er betri en United á tvö leiki til góða og annað kvöld tekur það á móti Portsmouth á Old Trafford.

Textalýsing leiksins er hér að neðan:

90. Howard Webb flautar til leiksloka í hreint frábærum leik. Allir áhorfendur á Anfield rísa upp úr sætum sínum og hylla leikmenn liðanna.

90. Þetta er ótrúlegur leikur. Yossi Benayoun jafnar í 4:4 á þriðju mínútu í uppbótartíma. Með þessum úrslitum er Liverpool að tylla sér á toppinn.

89. Andrei Arshavin er magnaður á Anfield í kvöld en Rússinn var að skora sitt fjórða mark og koma Arsenal í 4:3.

73. Markaregnið heldur áfram á Anfield. Torres var að jafna í 3:3 með góðu skoti. Í síðustu viku skildu Liverpool og Chelsea jöfn 4:4 í Meistaradeildinni og það skildi þó ekki fara að þessi leikur endaði eins.

70. Arshavin er óstöðvandi en var að koma Arsenal í 3:2 eftir mistök í vörn Liverool.

67. Rússinn Andrei Arsahavin hefur jafnað metin í 2:2. Arshavin fékk boltann á silfurfati eftir mistök frá Arbeloa og skoraði með þrumufleyg rétt utan vítateigs.

55. Liverpool er komið í 2:1. Yossi Benayoun, sem hefur átt frábæran leik, skoraði með kollspyrnu af harðfylgi eftir sendingu frá Kuyt.

49. Fernando Torres er búinn að jafna metin fyrir Liverpool. Spánverjinn frábæri skoraði með fallegu skallamarki eftir fína sendingu frá Dirk Kuyt.

45. Fabianski hefur haft nóg að gera í markinu og rétt fyrir lok fyrri hálfleiks varði hann vel skot frá Arbeloa.

38. Fabianski markvörður Arsenal er í fantaformi en hann sýndi frábær tilþrif þegar honum tókst að verja skot frá Yossi Benayoun.

36. Arsenal er komið yfir á Anfield með fallegu marki frá Andrei Arshavin. Rússinn fékk sendingu frá Cesc Fabregas og hann skoraði með föstu skoti af stuttu færi í sem fór í stöng og inn.

17. Fernando Torres átti glæsilegt skot sem Fabianski markvörður Arsenal gerði vel í að verja í horn.

Arsenal hefur átt í vök að verjast fyrstu 10 mínútur leiksins. Fernando Torres hefur gert mikinn usla í vörn Arsenal sem hefur haft í nógu að snúast.

Daniel Agger í baráttu við Arshavin á Anfield í kvöld.
Daniel Agger í baráttu við Arshavin á Anfield í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert