Almunia í enska landsliðið?

Manuel Almunia er hátt skrifaður hjá Arsene Wenger.
Manuel Almunia er hátt skrifaður hjá Arsene Wenger. Reuters

Manuel Almunia, spænski markvörðurinn hjá Arsenal, getur fengið breskan ríkisborgararétt í sumar og orðið gjaldgengur með enska landsliðinu. Arsene Wenger, knattspyrnustjóri félagsins, segir að Almunia væri  besti kostur Englendinga í stöðuna.

Almunia hefur verið búsettur í Englandi í fimm ár og hefur aldrei fengið tækifæri með spænska landsliðinu. Hann hefur af og til orðað þann draum sinn að leika fyrir Englands hönd.

„Fyrst hann verður löglegur, því þá ekki að nota hann? Ég er ekki aðeins á því að hann sé nógu góður til þess, ég tel að hann sé besti kosturinn í stöðuna," sagði Wenger við BBC í dag.

Almunia átti stórleik með Arsenal á miðvikudagskvöldið þegar liðið tapaði 1:0 fyrir  Manchester United á Old Trafford í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hann er 31 árs,  sjö árum yngri en aðalmarkvörður Englendinga, David James. Aðrir keppinautar um stöðuna eru helst þeir Paul Robinson, Chris Kirkland, Robert Green og Ben Foster.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert