Shearer: Við björgum okkur

Alan Shearer skipar sínum mönnum fyrir.
Alan Shearer skipar sínum mönnum fyrir. Reuters

Alan Shearer, knattspyrnustjóri Newcastle til bráðabirgða, er sannfærður um að sínir menn nái að sigra Aston Villa á Villa Park í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn og forða sér frá falli.

Tapi Newcastle leiknum er liðið fallið niður í 1. deildina, en á annars möguleika á að komast uppfyrir Hull eða Sunderland, sem bæði eiga erfiða leiki fyrir höndum. Hull leikur við Manchester United og Sunderland við Chelsea.

Shearer tók við Newcastle þegar átta umferðum var ólokið í deildinni og í sjö leikjum hefur liðið aðeins innbyrt einn sigur - gegn nágrönnunum í Middlesbrough sem þar með eru nánast örugglega fallnir úr deildinni.

„Ég hef verið spurður fyrir hvern einasta leik að undanförnu hvort þetta sé ekki stærsti leikurinn á ferlinum. Ég hef ávallt svarað því játandi, vegna þess að næsti leikur er alltaf sá stærsti. Nú vitum við hinsvegar nákvæmlega hvað er í húfi, við vitum hvað úrslitin í þessum leik geta haft í för með sér. Ég er sannfærður um að við getum farið til Birmingham og fært stuðningsmönnum okkar eitthvað til að gleðjast yfir. Ég er þess fullviss að við björgum okkur frá falli, og það sem skiptir meira máli er að leikmenn liðsins eru sannfærðir um það. Sunnudagurinn getur orðið virkilega góður dagur í sögu félagsins," sagði Shearer við Sky Sports.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert