Coyle: Eigum erindi í úrvalsdeildina

Leikmenn Burnley fagna á Wembley í dag.
Leikmenn Burnley fagna á Wembley í dag. Reuters

Owen Coyle, hinn írski knattspyrnustjóri Burnley, sagði eftir sigurinn á Sheffield United í dag að lið sitt ætti fullt erindi í ensku úrvalsdeildina. Þangað er liðið komið eftir 33 ára fjarveru en Burnley féll úr efstu deild vorið 1976 og hefur ekki átt afturkvæmt fyrr en nú.

„Við eigum mikið ævintýri fyrir höndum og hlökkum mikið til. Leikmenn okkar lögðu allt í leikinn í dag. Þetta var frábær leikur, boltinn gekk marka á milli, og við fengum tækifæri til að gera alveg út um hann," sagði Coyle við Sky Sports en Jóhannes Karl Guðjónsson fékk m.a. dauðafæri til að koma Burnley í 2:0.

„Við erum ekki með stóran hóp en ég tel að við höfum gæðin til að leika í úrvalsdeildinni, og að sjálfsögðu er ég í skýunum með þennan árangur. Ég er gífurlega stoltur fyrir hönd allra í bænum en um leið finn ég til með öllum hjá Sheffield United," sagði Owen Coyle.

Hann er 42 ára gamall Íri sem skoraði 249 mörk í 669 deildaleikjum á ferlinum. Coyle spilaði allan tímann í Skotlandi, nema tvö ár sem hann lék með enska liðinu Bolton, 1993-1995, og þar skoraði hann 12 mörk í 54 leikjum. Coyle spilaði einn landsleik fyrir Írland, árið 1994. Hann tók við stjórn Burnley í nóvember 2007 en áður hafði hann verið hársbreidd frá því að koma St.  Johnstone uppí skosku úrvalsdeildina, og liðið fór í undanúrslit í bikarnum undir hans stjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert