Ferguson afskrifar titilvonir Liverpool

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United. Reutes

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester United telur að Chelsea verði helsti keppinautur sinna mann um titilinn á komandi leiktíð en ekki Liverpool eins og á síðasta tímabili.

,,Það verður erfitt fyrir Liverpool að jafna árangur sinn frá því á síðustu leiktíð. Önnur lið vita meira um liðið núna. Liverpool átti líklega sitt besta tímabil í um 20 ár en varð samt fjórum stigum á eftir okkur,“ segir Ferguson í viðtali við enska blaðið The Sun í dag.

,,Ég held að ég verði að nefna Chelsea sem verður okkar helsti keppinautur. Ancelotti mun breyta leikstíl liðsins,“ segir Ferguson en tímabilið á Englandi hefst með formlegum hætti næstkomandi sunnudag þegar Manchester United og Chelsea eigast við um Samfélagsskjöldinn á Wembley.

Ferguson segir að með brotthvarfi Cristiano Ronaldo og Carlos Tévez muni liðið nálgast leikinn með öðrum hætti á þessu tímabili en hann segir að mannskapurinn sem hann hafi yfir að ráða sé vel í stakk búinn að fylla skörð þessarra manna.

,,Fólk hefur svolítið mistúlkað stöðu okkar og það hefur vanmetið hæfileika okkar til bæta leikmenn. Við reiknum með miklu frá Jonny Evans, Danny Welbeck, Darron Gibson, Federico Macheda og Da Silva bræðrunum. Nani og Anderson hafa sýnt hvað í þeim býr en þeir munu bæta sig á komandi leiktíð.

Að sjálfsögðu missum við mörkin hans Ronaldo en Berbatov mun gera það gott á tímabilinu og þeir Rooney og Owen eru báðir færir um að skora 20 mörk svo við höfum marga valkosti,“ segir Ferguson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert