Forlan: Ferguson sparkaði mér út

Diego Forlan fagnar marki með Atletico Madrid.
Diego Forlan fagnar marki með Atletico Madrid. Reuters

Diego Forlan, Úrúgvæinn sem lék með Manchester United á árunum 2002-2004, segir að hann hafi fengið reisupassann hjá Sir Alex Ferguson fyrir að spila ekki í réttum fótboltaskóm.

Það tók Forlan, sem er mála hjá spænska liðinu Atletico Madrid, 27 leiki að finna netmöskvana þegar hann lék með Manchester United en í viðtali við tímaritið Champions League magazine segir Forlan frá samskiptum sínum við Sir Alex.

,,Ferguson vildi að ég spilaði í skóm með stórum tökkum en mér finnst betra að vera í skóm með minni tökkum. Ég samþykkti að skipta um skó en gerði það ekki. Í leik á móti Chelsea hrasaði ég fyrir framan markið og klúðraði góðu færi.

Eftir leikinn þá flýtti ég mér inn í klefa til að skipta um skó. Ferguson elti mig. Hann hrifsaði af mér skóna og henti þeim. Þetta var síðasti leikur minn fyrir United,“ segir Forlan, sem fór frá Manchester United til Villareal og þaðan til Atletico Madrid og óhætt er að segja að Úrúgvæinn hafi staðið sig vel á Spáni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert