Sjálfsmark í uppbótartíma bjargaði Man.Utd

Darren Bent fagnar eftir að hafa komið Sunderland yfir á …
Darren Bent fagnar eftir að hafa komið Sunderland yfir á 7. mínútu á Old Trafford í dag. Reuters

Manchester United náði naumlega jafntefli gegn Sunderland, 2:2, á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Sunderland komst tvisvar yfir í leiknum en í uppbótartíma skoraði varnarmaður liðsins, Anton Ferdinand, sjálfsmark og þar með varð jafntefli niðurstaðan.

Manchester United er þar með á toppi deildarinnar með 19 stig en Chelsea er með 18 stig og á til góða stórleik gegn Liverpool á morgun. Tottenham er í þriðja sæti með 16 stig, Liverpool og Manchester City eru með 15 stig og City á 1-2 leiki til góða á hin liðin. Sunderland, undir stjórn Steve Bruce, fyrrum hetju í liði United, er í 6. sætinu og hefur komið skemmtilega á óvart það sem af er vetri.

Beina lýsingu frá leiknum má lesa með því að smella hér.

Darren Bent kom Sunderland yfir á 7. mínútu leiksins, 0:1.

Dimitar Berbatov jafnaði fyrir United á 51. mínútu, 1:1.

Sunderland náði hinsvegar forystunni á ný á 59. mínútu þegar Kenwyne Jones skoraði, 1:2.

Kieran Richardson hjá Sunderland, fyrrum leikmaður Manchester United, fékk rauða spjaldið á 85. mínútu. Hann fékk þá að líta sitt annað gula spjald fyrir að sparka boltanum í burtu.

Manchester United jafnaði í uppbótartíma þegar Anton Ferdinand, miðvörður Sunderland og litli bróðir Rio Ferdinands, skoraði sjálfsmark, 2:2.

Danny Welbeck var í byrjunarliði United en þetta var aðeins annar byrjunarliðsleikur hans frá upphafi í ensku úrvalsdeildinni. Ryan Giggs evar r ekki í leikmannahópnum og Michael Carrick og Rio Ferdinand á varamannabekknum.

Byrjunarlið United: Ben Foster - John O'Shea, Nemanja Vidic, Jonathan Evans, Patrice Evra, Nani, Darren Fletcher, Paul Scholes, Danny Welbeck, Wayne Rooney, Dimitar Berbatov.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert